154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[19:07]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er tvennt sem ég vil koma inn á í þessu. Við höfum alls ekki valið ódýrustu lausnirnar fyrir lögregluna. Við höfum valið það að breyta lögreglunáminu og færa það upp á háskólastig einmitt til að reyna að fá fleiri lausnir inn í samfélagslegar áskoranir sem lögreglumenn takast á við, fá fleiri fræðasvið til að horfa á verkefni lögreglu og annað slíkt. Það höfum við gert. Við höfum sett á sérdeild eins og héraðssaksóknara og skipulagða glæpastarfsemi og allt slíkt til að draga úr myndun glæpahópa, til að reyna að þurfa ekki að takast á við þetta á vettvangi. Þannig að það er allt saman í gangi, líka það sem lögreglan hefur vald á. Svo kom ég inn á það í ræðu minni áðan að við þurfum að standa vel með þriðja geiranum og heilbrigðiskerfinu og félagskerfinu sem við erum að taka á á öðrum stöðum. Þannig að við þurfum að vera í þessu.

Ég held að rafbyssur og aukinn vopnaburður lögreglu sé afleiðing en ekki lausn. Það er algerlega þannig. Ég hef séð rannsóknir frá Skotlandi og Bretlandi sem eru töluvert eldri en nýjustu rannsóknir þar sem bara það eitt að taka upp rafbyssu dró úr slysum á lögreglumönnum um rúmlega 70% og slysum á þeim handteknu um 50%. Er sá árangur minni núna í hina áttina? Er það út af því að rafvopnin voru tekin upp eða er það bara út af þessum hröðu breytingum í heiminum sem ég er að tala um hér? Það eru bara aukin átök, aukin skipulögð glæpastarfsemi og aukin átök. Er það það sem er að skapa slysin eða er það af því að við tókum upp rafbyssurnar? Ég held að við þurfum að horfa á þetta í því ljósi. Ég hef lent persónulega í mörgum svona aðstæðum þar sem maður er með kylfu sem beinbrýtur fólk eða gas sem meiðir fólk í 40 mínútur og brennir jafnvel sjónhimnuna sem rafbyssan hefði getað leyst á nokkrum sekúndum án þess að nokkur slasaðist og verið miklu betri. Og það eru jafnvel veikir einstaklingar. Þannig að ég held að þingmaðurinn sé aðeins fjarri veruleikanum þarna.